Mýrin 2014 – In the Moorland 2014

Alþjóðlega barnabókmenntahátíðin Úti í mýri verður næst haldin haustið 2014. Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir frá hátíðinni sem haldin var í Norræna húsinu haustið 2012, en hún bar heitið: Matur úti í mýri.
The next International Festival of Children’s Literature: In the Moorland, will be held in the Nordic House in Reykjavík in fall 2014. Below are photos from last festival: Food in the Moorland.

© ljósmyndir | photos: Áslaug Jónsdóttir

Matur úti í mýri 2012 – Food in the Moorland 2012:

Ekta danskt smurbrauð – skráning í vinnustofu

Katrine Klinken kennir börnum að gera ekta danskt smurbrauð í tveimur vinnustofum í Norræna húsinu á sunnudaginn kl. 13:00 og 14:00. Enn eru nokkur pláss laus í vinnustofunum og hægt að skrá börnin á netfanginu: myrinskraning@gmail.com.
Katrine Klinken er lærður matreiðslumaður og heimilisfræðikennari. Hún er höfundur fjölmargra matreiðslubóka fyrir bæði börn og fullorðna. Nýlega kom út bók hennar Børnenes køkken en það er ein stærsta matreiðslubók sinnar tegundar á dönsku. Klinken leiðbeinir börnum og fullorðnum í matreiðslu og er afkastamikill höfundur greina um mat- og matargerð, jafnt í tímaritum, dagblöðum sem og á bloggsíðu sinni, klinken.dk. Hún leggur áherslu á bragðgóðan og vandaðan mat, útbúnum úr besta mögulega hráefni hverju sinni.  Katrine Klinken  er einnig virk í alþjóðlegu hreyfingunni um „hæga matargerð“ eða slow food.

Franskbrauð með sultu

Kristín Steinsdóttir kemur í Norræna húsið sunnudaginn 16. september til að lesa fyrir svöng börn úr bók sinni Franskbrauð með sultu.
Kristín er höfundur fjölda bóka og leikrita bæði fyrir börn og fullorðna. Franskbrauð með sultu er fyrsta skáldsaga hennar og fyrir hana hlaut hún Íslensku barnabókaverðlaunin 1987. Kristín hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir bækur sínar, t.a.m Norrænu barnabókaverðlaunin, Menningarverðlaun DV og Fjöruverðlaunin.
 

Klóki Jói og prinsessan

 Candace Fleming kemur í Norræna húsið á sunnudaginn til að lesa söguna um klóka Jóa fyrir börn. Jói lendir í vanda þegar hann fær óvænt boð til hallarinnar í afmæli prinsessunnar. Jói vill gjarnan fara en mamma hans bendir honum á að hann eigi ekkert nógu fínt til að gefa afmælisprinsessunni enda séu þau mæðgin bláfátæk. En, eins og sést á meðfylgjandi mynd, þá fær Jói bráðsnjalla hugmynd og honum tekst að gera sér mat úr engu.
Candace Fleming er bandarískur höfundur myndabóka, skáldsagna og fræðibóka fyrir börn, þeirra á meðal bókina Clever Jack takes the Cake. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna, hefur oft verið á heiðurslista bandarísku bókasafnasamtakanna ALA,  hefur hlotið Boston Globe-Horn Book bókaverðlaunin, Gyllta flugdrekann og bókmenntaverðlaun Publisher’s Weekly. Fleming er sagnfræðingur að mennt og nýtir menntun sína til þess að glæða fortíðina lífi í skáldskapnum.

Smurbrauð, þrykkimyndir og sögugerð

Skráning í vinnustofurnar á sunnudeginum stendur nú yfir og enn er laust í nokkrar vinnustofur.

  • Þýski rit- og myndhöfundurinn Jutta Bauer kennir myndskreytingar og sögugerð. Vinnustofan er fyrir 6-10 ára og hefst klukkan 12:00.
  • Danski matreiðslubókahöfundurinn Katrine Klinken kennir börnum átta ára og eldri að gera  smurbrauð í tveimur vinnustofum kl 13:00 og 14:00.
  • Rit- og myndhöfundurinn Eric Rohmann kennir krökkum segja sögu í myndum í vinnustofu sem hefst kl. 14:30, hentar börnum níu ára og eldri.

Athugið að takmarkaður fjöldi þátttakenda er í allar vinnustofurnar og því nauðsynlegt að skrá börnin á: myrinskraning@gmail.com

Jakob Martin Strid

Því miður varð Jakob Martin Strid að afboða komu sína á síðustu stundu, hann kemst ekki af óviðráðanlegum orsökum. Strid tekur því ekki þátt í málstofunni Að éta eða vera étinn? sem hefst í Norræna húsinu kl. 15:30 næstkomandi laugardag, en málstofugestir verða samt sem áður ekki sviknir því Svein Nyhus, Sigrún Eldjárn og Ragnheiður Gestsdóttir munu halda þar æsispennandi fyrirlestra um mat og græðgi, vini sem eru étnir og þá sem eiga það til að éta vini sína. Þórarinn Eldjárn ávarpar málstofuna og málstofustjóri er Egill Helgason. Allir velkomnir.
Á meðfylgjandi mynd má sjá glorhungraðan og sísvangan krakkagemling eftir Svein Nyhus.

Að éta mann og annan

Í málstofunni “Megrun, mannát og afneitun í íslenskum barnabókum” fjallar Dagný Kristjánsdóttir um mannætuna í bók Þórarins Leifssonar, Leyndarmálið hans pabba.
Dagný Kristjánsdóttir er prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands. Helstu rannsóknarsvið hennar eru bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Doktorsritgerð hennar, Kona verður til (1996) er fyrsta doktorsritgerðin sem skrifuð er um íslenskar kvennabókmenntir. Nýjasta bók Dagnýjar er bókmenntasaga ætluð fyrir framhaldsskóla, Öldin öfgafulla (2010). Dagný hefur birt fjölmargar greinar hér á landi sem erlendis um íslenskar barnabókmenntir og von er á nýrri bók eftir hana, Bókabörn, sem fjallar um barnabókmenntir.

Höfuðlausir englar og fátækir riddarar

Í málstofunni “Megrun, mannát og afneitun í íslenskum barnabókum” fjallar Ármann Jakobsson um flókna samveru barns, guðdóms og matar í sögum  Maríu Gripe Jósefína, Húgó og Húgó og Jósefína sem komu út á íslensku 1973–1975.
Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið Ármanns er mjög vítt en hann hefur meðal annars rannsakað miðaldabókmenntir, menningarfræði og þjóðfræði og hefur hann skrifað bækur og greinar um þessi efni. Þá hefur Ármann einnig rannsakað hið yfirnáttúrulega og jaðarfólk og fengið til þess rannsóknarstyrki ásamt samstarfsfólki sínu. Ármann hefur m.a. birt ýmsar greinar um mynd barna, ungmenna og aldraðra í íslenskum heimildum. Hann er, ásamt Torfa Tulinus, annar ritstjóri bókarinnar Miðaldabörn (2005).
Málstofan hefst kl. 13.00 17. september.

Kynvitund, kossar og ólífur

Í málstofunni “Megrun, mannát og afneitun í íslenskum barnabókmenntum” ræðir Anna Heiða Pálsdóttir um hinn forboðna ávöxt íslenskra unglingabóka – hvað má, hvað á og hvað maður vill.
Anna Heiða Pálsdóttir er doktor í barnabókmenntum frá Háskólanum í Worcester en doktorsritgerð hennar ber titilinn “History, Landscape and National Identity: A Comparative Study of Contemporary English and Icelandic Children’s Literature.“ Anna Heiða hefur kennt ýmis námskeið við Háskóla Íslands og Endurmenntun Háskóla Íslands, þar á meðal um skapandi skrif og barnabókmenntir. Anna Heiða hefur birt greinar um barnabókmenntir auk þess að þýða enskar barna- og unglingabækur á íslensku. Hún er höfundur fantasíunnar Galdrastafir og græn augu en von er á nýrri unglingabók eftir Önnu Heiðu á þessu ári.

Matarlist í íslenskum barnabókum – opnun

Sýningin Matarlist í íslenskum barnabókum var opnuð í anddyri Norræna hússins í dag. Til sýnis eru matartengdar myndir sautján íslenskrar myndhöfunda sem allar hafa birst í íslenskum barnabókum. Kristín Steinsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, ávarpaði gesti og bar saman matar- og myndlistarhefðina í barnabókum á árum áður og nú til dags. Margt var um manninn, börn og fullorðna og nutu allir grænu frostpinnanna, myndanna og bókanna sem hægt er að skoða á sýningunni.
Ekki missa af þessari stórskemmtilegu og fróðlegu sýningu fyrir börn á öllum aldri.