Köttur úti í mýri 2001

kottur-logo2-isl.jpgBarnabókmenntahátíðin Úti í mýri var haldin í fyrsta sinn 2001 undir heitinu Köttur úti í mýri. Þema hátíðarinnar var „Ferðin“ sem getur tekið á sig ýmsar myndir: verið ferð inn á við, draumur eða uppgötvun, nú eða jafnvel tímaflakk.
Gestir hátíðarinnar voru Bent Haller frá Danmörku, Guðrún Helgadóttir, Hannele Huovi frá Finnlandi, Rakel Helmsdal  frá Færeyjum, Tor Åge Bringsværd frá Noregi og Ulf Stark frá Svíþjóð.
Dagskráin samanstóð af rithöfundakynningum, nemendum í  7. bekk var boðið að koma og hitta norræna höfunda,  kennsluráðgjafi Norræna hússins, Kristín Jóhannesdóttir, leiddi nemendur um ævintýrasýningu Sjöunda himinsins, Köttur úti í mýri. Nemendum í sænsku og norsku í 10.bekk og framhaldsskólanemum á 1. og 2. ári var boðið í bókmenntaspjall og upplestur á dönsku, norsku og sænsku. Norrænt höfundaþing fór fram í sal Norræna hússins þar sem ferðir og goðsögur í norrænum barna- og unglingabókmenntum voru til umfjöllunar. Einnig var haldin ráðstefna í tengslum við hátíðina um stöðu bókarinnar í barna- og unglingamenningu samtímans.
Á borgarbókasafni fór fram sýning á myndum úr íslenskum barnabókum, norrænu höfundarnir lásu fyrir börnin á frummáli og haldnir voru tónleikar fyrir börn á öllum aldri með Tante Andante frá Danmörku ásamt Önnu Pálínu Árnadóttur og Aðalsteini Ásberg. Í tengslum við hátíðina fór fram opnun á myndskreytingum í sænskum barnabókum í anddyri Norræna hússins.
Einnig sýndi Möguleikhúsið barnaleikritið Skuggaleik eftir Guðrúnu Helgadóttur.