Því miður varð Jakob Martin Strid að afboða komu sína á síðustu stundu, hann kemst ekki af óviðráðanlegum orsökum. Strid tekur því ekki þátt í málstofunni Að éta eða vera étinn? sem hefst í Norræna húsinu kl. 15:30 næstkomandi laugardag, en málstofugestir verða samt sem áður ekki sviknir því Svein Nyhus, Sigrún Eldjárn og Ragnheiður Gestsdóttir munu halda þar æsispennandi fyrirlestra um mat og græðgi, vini sem eru étnir og þá sem eiga það til að éta vini sína. Þórarinn Eldjárn ávarpar málstofuna og málstofustjóri er Egill Helgason. Allir velkomnir.
Á meðfylgjandi mynd má sjá glorhungraðan og sísvangan krakkagemling eftir Svein Nyhus.
Category: Uncategorized
Kynvitund, kossar og ólífur
Í málstofunni “Megrun, mannát og afneitun í íslenskum barnabókmenntum” ræðir Anna Heiða Pálsdóttir um hinn forboðna ávöxt íslenskra unglingabóka – hvað má, hvað á og hvað maður vill.
Anna Heiða Pálsdóttir er doktor í barnabókmenntum frá Háskólanum í Worcester en doktorsritgerð hennar ber titilinn “History, Landscape and National Identity: A Comparative Study of Contemporary English and Icelandic Children’s Literature.“ Anna Heiða hefur kennt ýmis námskeið við Háskóla Íslands og Endurmenntun Háskóla Íslands, þar á meðal um skapandi skrif og barnabókmenntir. Anna Heiða hefur birt greinar um barnabókmenntir auk þess að þýða enskar barna- og unglingabækur á íslensku. Hún er höfundur fantasíunnar Galdrastafir og græn augu en von er á nýrri unglingabók eftir Önnu Heiðu á þessu ári.
Matarlist í íslenskum barnabókum – opnun
Sýningin Matarlist í íslenskum barnabókum var opnuð í anddyri Norræna hússins í dag. Til sýnis eru matartengdar myndir sautján íslenskrar myndhöfunda sem allar hafa birst í íslenskum barnabókum. Kristín Steinsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, ávarpaði gesti og bar saman matar- og myndlistarhefðina í barnabókum á árum áður og nú til dags. Margt var um manninn, börn og fullorðna og nutu allir grænu frostpinnanna, myndanna og bókanna sem hægt er að skoða á sýningunni.
Ekki missa af þessari stórskemmtilegu og fróðlegu sýningu fyrir börn á öllum aldri.