Gestur 2012 – Guest in 2012: Svein Nyhus

TheFox Svein Nyhus
Norski myndbókahöfundurinn Svein Nyhus var gestur á hátíðinni Matur úti í mýri 2012. Svein heldur úti skemmtilegri heimasíðu. Hann er afkastamikill teiknari og gaf m.a. nýverið frá sér bókina: Hva sier reven? með myndum við söngtexta hljómsveitarinnar Ylvis: What Does the Fox Say?. Í myndbandinu hér fyrir neðan segir hann frá vinnuaðferðum sínum. Tal: norska.
A look back – Guest at previous festival: Svein Nyhus. Norwegian author an illustrator was a guest at Food in the Moorland 2012. Last year he made a great success with a new picture book to the lyrics of Ylvis’s YouTube sensation: What Does the Fox Say?. Svein Nyhus has a great blog that is worth a visit.
In the video below he talks about his working methods. 
Language: Norwegian.

Gestur 2012 – Guest in 2012: Jutta Bauer

Jutta Bauer

Jutta Bauer


Á meðan við bíðum eftir því að gestalistinn á Mýrarhátíð 2014 verði kynntur, er ekki úr vegi að rifja upp nöfn gesta frá fyrri hátíðum. Jutta Bauer kom á hátíðina Matur úti í mýri 2012 og hélt m.a. velheppnaða vinnustofu fyrir börn. Hér er áhugavert myndband þar sem Jutta kynnir list sína.
Tal: enska, texti: spænska.
While we wait for the list of guests of The Moorland Festival 2014, a look back on previous participants may be appropriate. Jutta Bauer was a guest at Food in the Moorland in 2012. Here is an interesting video where she talks about her art.
Language: English. Text: Spanish.

Mýrin 2014 – In the Moorland 2014

Alþjóðlega barnabókmenntahátíðin Úti í mýri verður næst haldin haustið 2014. Hér fyrir neðan má sjá ljósmyndir frá hátíðinni sem haldin var í Norræna húsinu haustið 2012, en hún bar heitið: Matur úti í mýri.
The next International Festival of Children’s Literature: In the Moorland, will be held in the Nordic House in Reykjavík in fall 2014. Below are photos from last festival: Food in the Moorland.

© ljósmyndir | photos: Áslaug Jónsdóttir

Matur úti í mýri 2012 – Food in the Moorland 2012:

Ekta danskt smurbrauð – skráning í vinnustofu

Katrine Klinken kennir börnum að gera ekta danskt smurbrauð í tveimur vinnustofum í Norræna húsinu á sunnudaginn kl. 13:00 og 14:00. Enn eru nokkur pláss laus í vinnustofunum og hægt að skrá börnin á netfanginu: myrinskraning@gmail.com.
Katrine Klinken er lærður matreiðslumaður og heimilisfræðikennari. Hún er höfundur fjölmargra matreiðslubóka fyrir bæði börn og fullorðna. Nýlega kom út bók hennar Børnenes køkken en það er ein stærsta matreiðslubók sinnar tegundar á dönsku. Klinken leiðbeinir börnum og fullorðnum í matreiðslu og er afkastamikill höfundur greina um mat- og matargerð, jafnt í tímaritum, dagblöðum sem og á bloggsíðu sinni, klinken.dk. Hún leggur áherslu á bragðgóðan og vandaðan mat, útbúnum úr besta mögulega hráefni hverju sinni.  Katrine Klinken  er einnig virk í alþjóðlegu hreyfingunni um „hæga matargerð“ eða slow food.

Klóki Jói og prinsessan

 Candace Fleming kemur í Norræna húsið á sunnudaginn til að lesa söguna um klóka Jóa fyrir börn. Jói lendir í vanda þegar hann fær óvænt boð til hallarinnar í afmæli prinsessunnar. Jói vill gjarnan fara en mamma hans bendir honum á að hann eigi ekkert nógu fínt til að gefa afmælisprinsessunni enda séu þau mæðgin bláfátæk. En, eins og sést á meðfylgjandi mynd, þá fær Jói bráðsnjalla hugmynd og honum tekst að gera sér mat úr engu.
Candace Fleming er bandarískur höfundur myndabóka, skáldsagna og fræðibóka fyrir börn, þeirra á meðal bókina Clever Jack takes the Cake. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna, hefur oft verið á heiðurslista bandarísku bókasafnasamtakanna ALA,  hefur hlotið Boston Globe-Horn Book bókaverðlaunin, Gyllta flugdrekann og bókmenntaverðlaun Publisher’s Weekly. Fleming er sagnfræðingur að mennt og nýtir menntun sína til þess að glæða fortíðina lífi í skáldskapnum.

Smurbrauð, þrykkimyndir og sögugerð

Skráning í vinnustofurnar á sunnudeginum stendur nú yfir og enn er laust í nokkrar vinnustofur.

  • Þýski rit- og myndhöfundurinn Jutta Bauer kennir myndskreytingar og sögugerð. Vinnustofan er fyrir 6-10 ára og hefst klukkan 12:00.
  • Danski matreiðslubókahöfundurinn Katrine Klinken kennir börnum átta ára og eldri að gera  smurbrauð í tveimur vinnustofum kl 13:00 og 14:00.
  • Rit- og myndhöfundurinn Eric Rohmann kennir krökkum segja sögu í myndum í vinnustofu sem hefst kl. 14:30, hentar börnum níu ára og eldri.

Athugið að takmarkaður fjöldi þátttakenda er í allar vinnustofurnar og því nauðsynlegt að skrá börnin á: myrinskraning@gmail.com

Að éta mann og annan

Í málstofunni “Megrun, mannát og afneitun í íslenskum barnabókum” fjallar Dagný Kristjánsdóttir um mannætuna í bók Þórarins Leifssonar, Leyndarmálið hans pabba.
Dagný Kristjánsdóttir er prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Háskóla Íslands. Helstu rannsóknarsvið hennar eru bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Doktorsritgerð hennar, Kona verður til (1996) er fyrsta doktorsritgerðin sem skrifuð er um íslenskar kvennabókmenntir. Nýjasta bók Dagnýjar er bókmenntasaga ætluð fyrir framhaldsskóla, Öldin öfgafulla (2010). Dagný hefur birt fjölmargar greinar hér á landi sem erlendis um íslenskar barnabókmenntir og von er á nýrri bók eftir hana, Bókabörn, sem fjallar um barnabókmenntir.

Höfuðlausir englar og fátækir riddarar

Í málstofunni “Megrun, mannát og afneitun í íslenskum barnabókum” fjallar Ármann Jakobsson um flókna samveru barns, guðdóms og matar í sögum  Maríu Gripe Jósefína, Húgó og Húgó og Jósefína sem komu út á íslensku 1973–1975.
Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands. Rannsóknarsvið Ármanns er mjög vítt en hann hefur meðal annars rannsakað miðaldabókmenntir, menningarfræði og þjóðfræði og hefur hann skrifað bækur og greinar um þessi efni. Þá hefur Ármann einnig rannsakað hið yfirnáttúrulega og jaðarfólk og fengið til þess rannsóknarstyrki ásamt samstarfsfólki sínu. Ármann hefur m.a. birt ýmsar greinar um mynd barna, ungmenna og aldraðra í íslenskum heimildum. Hann er, ásamt Torfa Tulinus, annar ritstjóri bókarinnar Miðaldabörn (2005).
Málstofan hefst kl. 13.00 17. september.

Matur úti í mýri 2012 – dagskrá

Laugardagur 15. september

Opnun – 14:00 – Arndís Þórarinsdóttir, formaður stjórnar Mýrarinnar, flytur opnunarávarp. Verðlaun verða afhent og vinningshafar lesa upp sögur sínar. Svavar Knútur leikur tónlist. Opnunin fer að hluta til fram á ensku.
Samtal við höfunda – 15:30Að éta eða vera étinn? Þórarinn Eldjárn flytur ávarp. Rit- og myndhöfundarnir Svein Nyhus, Sigrún Eldjárn, Jakob Martin Strid og Ragnheiður Gestsdóttir ræða um mat í barnabókum. Málstofustjóri er Egill Helgason. Málstofan fer fram á ensku.

Sunnudagur 16. september

Upplestur – 11:00 – Kristín Arngrímsdóttir les um grallarann Arngrím apaskott. Fyrir 3+
Upplestur – 11:30 – Þórarinn Eldjárn les ljóð fyrir börn á öllum aldri. Fyrir 5+
Vinnustofa – 12:00 – Þýski rit- og myndhöfundurinn Jutta Bauer kennir myndskreytingar og sögugerð. Ath! Takmarkaður fjöldi þátttakenda. Fyrir 6+.
Upplestur – 12:30 – Rithöfundurinn Candace Fleming les fyrir börn. Fyrir 5+
Vinnustofa – 13:00 – Danski matreiðslubókahöfundurinn Katrine Klinken kennir börnum að gera  smurbrauð.  Ath! Takmarkaður fjöldi þátttakenda. Fyrir 8+
Upplestur – 13:30 – Kanadíski rithöfundurinn Polly Horvath les fyrir börn. Fyrir sex+
Vinnustofa – 14:00 – Katrine Klinken kennir börnum að gera  smurbrauð.  Ath! Takmarkaður fjöldi þátttakenda. Fyrir 8+
Vinnustofa – 14:30 – Rit- og myndhöfundurinn Eric Rohmann kennir krökkum segja sögu í myndum. Ath! Takmarkaður fjöldi þátttakenda. Fyrir 9+
Upplestur – 15:00 – Rithöfundurinn Kristín Steinsdóttir les fyrir börn.
Leiðsögn – 15:00 – Jutta Bauer stýrir leiðsögn fyrir börn um sýninguna Í skóginum stóð kofi einn eftir myndum úr samnefndri bók. Fyrir fjögurra ára og eldri. Athugið að sýningin er í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu.

Athugið að nauðsynlegt er að skrá sig í vinnustofur í netfanginu: myrinskraning@gmail.com, en einnig má skrá sig samdægurs í afgreiðslunni í Norræna húsinu séu ennþá laus pláss.
Allir atburðir Mýrarinnar eru gjaldfrjálsir, þar á meðal vinnustofurnar.

Mánudagur 17. september

Málstofa – 13:00Megrun, mannát og afneitun í íslenskum barna- og unglingabókum. Ármann Jakobsson: Höfuðlausir englar og fátækir riddarar. Dagný Kristjánsdóttir: Að éta mann og annan. Anna Heiða Pálsdóttir: Kynvitund, kossar og ólífur: Hinn forboðni ávöxtur í íslenskum unglingabókum. Fyrirspurnir og umræður að fyrirlestrum loknum. Málstofustjóri er Helga Birgisdóttir.
Málstofa – 15:00Matur í myndum, drengur í súpu og siðferðislegar vangaveltur. Fridunn Karsrud: Butterbuck soup and other delicious meals. Unni Solberg og Kirsti-Nina Frønæs: Om mat og moral i Thorbjørn Egners Hakkebakkeskogen. Kristin Hallberg: Äta bör man annars dör man. Fyrirspurnir og umræður að fyrirlestrum loknum. Málstofustjóri er Gro Tove Sandsmark. Málstofan fer fram á sænsku og norsku.

Myndlistarsýningar

Matarlist í íslenskum barnabókum – 9.-19. september – Sýning á myndum úr barnabókum í anddyri Norræna hússins – þemasýning á myndlýsingum í íslenskum barnabókum. Myndirnar eru valdar í því augnamiði að sýna fjölbreytta flóru myndhöfunda og margvísleg efnistök en eiga það sameiginlegt að lýsa mat, matseld, borðhaldi og áti í íslenskum barnabókum. Sýningin opnar kl. 14:00 sunnudaginn 9. september.
Í skóginum stóð kofi einn – 15. september – 4. október – Sýning á myndum eftir þýska rithöfundinn Jutta Bauer. Myndirnar eru úr samnefndri bók eftir Bauer sem kom út á íslensku fyrr á árinu. Jutta Bauer verður með leiðsögn um sýninguna fyrir börn kl. 15:00 sunnudaginn 16. september. Athugið að sýningin er á Reykjavíkurtorgi í Borgarbókasafninu við Tryggvagötu.

Matarlist í íslenskum barnabókum

Sýning á barnabókamyndskreytingum í anddyri Norræna hússins

MATARLIST í íslenskum barnabókum er þemasýning á myndlýsingum í íslenskum barnabókum, haldin í Norræna húsinu 9. – 19. september. Sýningin er í tengslum við alþjóðlegu barnabókmenntahátíðina Matur úti í mýri sem haldin verður dagana 15.- 17. september 2012. Myndirnar eru valdar í því augnamiði að sýna fjölbreytta flóru myndhöfunda og margvísleg efnistök en eiga það sameiginlegt að lýsa mat, matseld, borðhaldi og áti í íslenskum barnabókum.
Kristín Steinsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, opnar sýninguna kl. 14:00 9. september. Allir velkomnir.