Sigrún og Þórarinn Eldjárn – Heiðursgestir 2018

                          

Mýrin kynnir með stolti heiðursgesti hátíðarinnar,
mynd- og rithöfundana Sigrúnu Eldjárn og Þórarin Eldjárn.

Sigrún Eldjárn er fædd í Reykjavík 1954. Hún lauk námi frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1977 og dvaldi síðan sem gestanemandi við Listaakademíurnar í Varsjá og Kraká í Póllandi um skeið árið 1978. Sigrún starfar sem myndlistarmaður og rithöfundur. Hún hefur haldið margar einkasýningar og tekið þátt í fjölmörgum samsýningum víða um lönd.
Sigrún hóf snemma að myndskreyta bækur en árið 1980 ákvað hún að reyna sig líka á ritvellinum. Það sama ár kom út hennar fyrsta bók, Allt í plati! 
Síðan þá hefur hún gefið út allt frá einni og upp í fleiri bækur á hverju ári og eru þær nú orðnar óteljandi. Þær eru af ýmsu tagi, stuttar og langar, feitar og mjóar en eiga það sameiginlegt að vera allar ríkulega myndskreyttar.
Hún hefur meðal annars hlotið Riddarakross hinnar íslensku Fálkaorðu fyrir framlag sitt til barnamenningar. Dimmalimm myndskreytiverðlaunin, Sögustein Ibby, Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur, íslensku Bjartsýnisverðlaunin og verið auk þess tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, Fjöruverðlaunanna, ALMA-verðlaunanna, Norrænu og Vestnorrænu barnabókaverðlaunanna og H.C. Andersen verðlaunanna.
Einkunnarorð Sigrúnar eru “Nulla dies sine linea” (enginn dagur án línu)

Þórarinn Eldjárn fæddist í Reykjavík 1949. Að loknu stúdentsprófi frá máladeild MR 1969 stundaði hann háskólanám í Lundi og í Reykjavík, las bókmenntasögu, heimspeki og íslensku. Lauk fil. kand. prófi í Lundi 1975, var eftir það búsettur í Stokkhólmi fram undir 1980 en í Reykjavík síðan.
Fyrsta ljóðabók hans, Kvæði, kom út 1974 og síðan hefur hann starfað sem rithöfundur og þýðandi. Eftir hann liggja ótal ljóðabækur fyrir fullorðna og börn, smásagnasöfn og skáldsögur auk þess sem hann hefur átt aðild að mörgum sviðsverkum og fengist við þýðingar. Þórarinn þýddi meðal annars Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll.
Meðal viðurkenninga sem Þórarinn hefur hlotið eru Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir barnabækurnar Árstíðirnar (2010) og Gælur, fælur og þvælur (2007), og ljóðabókina Hættir og mörk (2005). Árið 2008 var hann útnefndur Borgarlistamaður Reykjavíkur. Hann hlaut Vorvindaverðlaun Íslandsdeildar IBBY árið 2001 og Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir Halastjörnu árið 1998. Ennfremur hlaut hann Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 1998, Sögusteininn árið 2013 og Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar árið 2006.
 
Þórarinn og Sigrún hafa sent frá sér nokkrar ljóðabækur fyrir börn og hafa þær hlotið fjölmargar viðurkenningar. Bók þeirra, Fuglaþrugl og naflakrafl, var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna árið 2014.