Marta Hlín Magnadóttir

Marta Hlín Magnadóttir er fædd árið 1970 á Ísafirði og bjó þar til tvítugs. Hún lauk píanókennaranámi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1996 og hóf í kjölfarið störf sem píanókennari. Vorið 2011 lauk hún M.Ed námi frá Háskóla Íslands í náms- og kennslufræðum, með íslensku og íslenskukennslu sem kjörsvið. Mastersritgerðin bar nafnið Lesandi er landkönnuður og fjallar um barnabækur í kennslu á miðstigi. Sama haust stofnaði hún Bókabeituna ásamt Birgittu Elínu Hassell í þeim tilgangi að auka fjölbreytni í úrvali á barnabókum og um leið að kenna sem flestum börnum að lesa. Marta og Birgitta skrifuðu saman bókaflokkinn Rökkurhæðir en níunda og síðasta bókin í þeim flokki, Endalokin: Gjörningaveður, kom út árið 2017. Samhliða skrifum hefur Marta gefið út fjölmargar bækur fyrir börn og unglinga og ritstýrt þeim allnokkrum auk  þess að sinna almennum skrifstofustörfum, dreifingu og öðru sem tilheyrir bókaútgáfu. Bækur frá Bókabeitunni hafa verið tilnefndar til Fjöruverðlauna og Íslensku bókmenntaverðlaunanna og þrjú ár í röð átti útgáfan heiðurinn af að gefa út bók sem tilnefnd var til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.
Marta Hlín Magnadóttir tekur þátt í málstofunni DEIGLAN – ÍSLENSKAR BARNABÆKUR Í DAG OG Á MORGUN á laugardaginn 13. október.