Ævar Þór Benediktsson

Ævar Þór Benediktsson (f. 1984) er leikari og rithöfundur. Hann er þekktastur fyrir bókaröðina ,,Þín eigin”, þar sem lesandinn ræður ferðinni; Þín eigin þjóðsaga (2014), Þín eigin goðsaga (2015), Þín eigin hrollvekja (2016), Þitt eigið ævintýri (2017), Þín eigin saga 1 og 2 (2018) og bækurnar um bernskubrek Ævars vísindamanns. Hann hefur einnig starfað mikið í sjónvarpi og útvarpi, þá mest sem Ævar vísindamaður, en fyrir sjónvarpsþættina sína hefur hann unnið fjögur Edduverðlaun. Þá hefur hann hlotið bæði Bókaverðlaun barnanna og Bóksalaverðlaunin fyrir bækur sínar. Veturinn 2017 var Ævar valinn á Aarhus39-listann, lista yfir 39 bestu barnabókahöfunda í Evrópu undir fertugu. Ævar stóð fjórum sinnum fyrir Lestrarátaki Ævars vísindamanns, en í þeim hafa um 230 þúsund bækur verið lesnar samtals. Vorið 2017 hlaut Ævar sérstaka viðurkenningu frá Samtökum móðurmálskennara fyrir framlag sitt til tungumálsins og lestrar. Haustið 2017 hlaut Ævar svo titilinn Framúrskarandi ungur Íslendingur fyrir afrek á sviði menntamála af JCI á Íslandi. Árið 2018 var Ævar tilnefndur til foreldraverðlauna Heimilis og skóla fyrir lestrarátak Ævars vísindamanns, auk þess að hljóta Vorvindaviðurkenningu IBBY fyrir framlag sitt til barnamenningar á Íslandi. Í byrjun apríl, á Landsþingi Lions, fékk Ævar Melvin Jones-viðurkenninguna fyrir ötult starf sitt í lestrarátaki barna.
Ævar Þór tekur þátt í málstofu á ráðstefnudegi hátíðarinnar, föstudaginn 12. október.