Kristín Helga Gunnarsdóttir

Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur er fædd árið 1963 í Reykjavík. Hún stundaði spænskunám við Háskólann í Barcelona og Háskóla Íslands og útskrifaðist með BA-próf í fjölmiðlafræði og spænskum bókmenntum frá háskólanum í Salt Lake City í Utah í Bandaríkjunum árið 1987.
Eftir að hafa starfað sem fréttamaður á Stöð 2 í 11 ár sneri Kristín Helga sér alfarið að ritstörfum og blaðamennsku. Fyrsta bók hennar Elsku besta Binna mín kom út árið 1997. Síðan þá hafa komið út eftir Kristínu Helgu á fjórða tug verka sem spanna allt frá skáldsögum og smásögum, jafnt fyrir yngri sem eldri lesendur, yfir í sjónvarpshandrit og lestrarefni fyrir grunnskóla. Þekktust er líklega hin margverðlaunaða Fíasól en bókaflokkurinn kemur allur út á rússnesku í Moskvu á þessu ári. Auk þess eru þýskir kvikmyndaframleiðendur ásamt íslenskum að vinna að sjónvarpsþáttaröð um Fíusól sem verður kvikmynduð á Íslandi. Nýjasta bók Kristínar Helgu er Fíasól og furðusaga um krakka með kött í maga, hundrað síðna fæðingarsaga Fíusólar í bundnu máli.
Á rithöfundarferli sínum hafa Kristínu Helgu hlotnast margvísleg verðlaun og viðurkenningar, m.a. barnabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins og Sögustein, Fjöruverðlaunin í þrígang, barnabókaverðlaun IBBY og henni hafa einnig hlotnast margoft Bókaverðlaun barnanna en þá velja börn á aldrinum 6-12 ára þá bók sem þau telja skara fram úr það árið.
Bók hennar Vertu ósýnilegur – flóttasaga Ishmaels var tilnefnd fyrir hönd Íslands til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2018, hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar sama ár ásamt Fjöruverðlaununum og var einnig tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Höfundur lagðist í töluverða rannsóknarvinnu við skrif bókarinnar og hefur sú vinna skilað sér í sannfærandi frásögn af aðstæðum barna og ungmenna í kjölfar borgarastyrjaldarinnar í Sýrlandi. Hvernig hörmungar úti í heimi geta tengst okkar veruleika og svo sannarlega komið okkur við.
Bókin Fjallaverksmiðja Íslands kom út 2019 og er um ungmenni sem hafa nýlokið stúdentsprófi af fjallamennskubraut á Höfn. Þau eru ung, full af eldimóði og von og sameinuð í nýrri vináttu. Bókin er flokkuð sem unglingabók, en hún á erindi til eldri lesenda líka. Fjallaverksmiðjan kallast á við Vertu ósýnilegur – Flóttasaga Ishmaels. Stúdentarnir hefja ferð sína frá Höfn til Reykjavíkur í válegu vorveðri sem hrekur þau að Breiðárbragga. Þar ákveða þau að fara ekki lengra og stofna fríríki, lifa af mat úr ruslagámum, vinna við að þjónusta ferðamenn og njóta lífsins. Með í hópnum er Emma, áhrifavaldur á samfélagsmiðlum, sem talar tæpitungulaust um allt sem kemur að loftslagsmálum. Fríríkið blómstrar og í gegnum Emmu verða ungmennin fræg um allan heim. Líf þeirra verður söluvara og peningaöflin eru ekki lengi að gera sér grein fyrir gróðavoninni. Þegar Emma finnst meðvitundarlaus í kajak úti á miðju Jökulsárlóni kemur í ljós að það eru sterkari öfl að verki en ungmennin geta ráðið við.
Fyrir utan ritstörf og kennslu hefur Kristín Helga einnig starfað sem leiðsögumaður, setið í stjórnum Náttúruverndarsamtaka Íslands og Rithöfundasambands Íslands og frá 2014-2018 verið formaður þess síðarnefnda.