Hildur Knútsdóttir

Hildur Knútsdóttir er íslenskur rithöfundur, fædd árið 1984. Hún skrifar bæði fyrir börn og fullorðna í hinum ýmsu miðlum. Tvíleikur hennar um innrás mannætugeimvera á Íslandi, Vetrarfrí og Vetrarhörkur, hlutu Fjöruverðlaunin – bókmenntaverðlaun kvenna árið 2016 og Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2017 og hefur útgáfuréttur þeirra verið seldur til fjölmargra landa. Um þessar mundir er unnið að sjónvarpsseríu byggðri á bókunum. Bækurnar um hinn sérvitra Dodda, sem hún skrifaði í félagi við Þórdísi Gísladóttur, hafa líka fengið góðar viðtökur. Áttunda bók hennar Ljónið er fyrsta bókin í nýjum furðusagnaþríleik. Bókin var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkur 2019. Framhald hennar Nornin kom út árið 2019 og var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Barnabókaverðlauna Reykjavíkur. Þriðja og síðasta bókin í furðusagnaþríleiknum Skógurinn kom út árið 2020 og var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Í fyrra kom út bók eftir Hildi og Þórdísi Gísladóttur Hingað og ekki lengra!. Hún er sú fyrsta í nýjum bókaflokki sem fjallar um Vigdísi Fríðu og vinkonur hennar, sem eru róttækar unglingsstelpur í Reykjavík. Hrollvekjan Myrkrið á milli stjarnanna eftir Hildi er væntanleg í haust og einnig önnur bók í bókaflokknum um Vigdísi Fríðu eftir Hildi og Þórdísi Gísladóttur Nú er nóg komið!. Hildur er femínisti og loftslagsaktívisti og er búsett í Reykjavík ásamt eiginmanni og tveimur dætrum.