Gunnar Theodór Eggertsson

Mynd: Elsa Björg Magnúsdóttir

Gunnar Theodór Eggertsson er fæddur árið 1982 í Reykjavík. Hann hefur skrifað bækur fyrir börn, unglinga og fullorðna, og hefur sérstakt dálæti á furðusögum. Gunnar hóf feril sinn með Vetrarsögu, hryllingssmásögu um íslensku jólasveinana, sem hlaut Gaddakylfuna, verðlaun Hins íslenska glæpafélags, árið 2005. Hann hlaut einnig Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Steindýrin árið 2008 og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Drauga-Dísu árið 2015.
Gunnar er með meistaragráðu í kvikmyndafræði frá Háskólanum í Amsterdam og doktorsgráðu í almennri bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og hefur sérhæft sig í dýrasiðfræði og dýrasögum.
Hann hefur áhuga á sagnagerð í ýmsum miðlum, hefur m.a. starfað sem kvikmyndagagnrýnandi hjá RÚV og skrifað fyrir tölvuleikinn Island of Winds, sem byggir á íslenskum þjóðsagnaarfi. Nýjasta bók Gunnars er Nornaseiður, fyrsta bindið í ritröðinni Furðufjall, ævintýrasögu sem gerist á hulinni eyju handan norðursins.